Tuesday, December 14, 2010

Ævintýranna vitjað

E.T.: The Extra-Terrestrial
(Steven Spielberg, 1982)

Töfrar kvikmyndanna koma sjaldan jafn vel í ljós í kvikmyndum eins og E.T. – Extra Terrestrial (1982). Sagan af Elliot, systkinum hans og kynnum þeirra af geimverunni E.T. er fullkomin blanda af ævintýri og góðum boðskap sem hentar allri fjölskyldunni.

Steven Spielberg var orðinn þekktur leikstjóri og framleiðandi þegar E.T. kom út. Að baki voru Close Encounters of the Third Kind, Jaws og Raiders of the Lost Arc en sérhannaðar ævintýramyndir fyrir krakka voru ekki komnar í það horf sem síðar varð vinsælt. Það má því segja að E.T. hafi verið forsmekkurinn að því sem koma skyldi. Myndir um lítinn hóp barna á breiðu aldursbili sem lenda í ótrúlegum ævintýrum þar sem hæfileikar hvers og eins njóta sín fóru að skjóta upp kollinum. Ein sú þekktasta, The Goonies, var einnig úr smiðju Spielbergs.

Ef myndirnar um Stjörnustríðin kenndu Hollywood framleiðendum eitthvað þá var það að vanmeta ekki stærð barna sem neytenda. Börn urðu í vaxandi mæli að markhópi kvikmyndaframleiðenda enda var fleira í húfi en aðeins miðasala. Vinsæl mynd og vel heppnuð markaðssetning gat fært framleiðendum leikfanga milljónir, ef ekki milljarða, dala í gróða væri rétt staðið að málum. Við þetta mátti bæta auglýsingatekjum af þeim vörum sem komu fyrir í myndunum. Enda er kóka-kóla skammlaust komið fyrir í samtali Elliots og E.T. framarlega í myndinni og dósin höfð mjög sýnileg í atriðinu. Hvað sem markaðsetningu líður þá er gild ástæða fyrir vinsældum myndarinnar. Krökkum þykir hún skemmtileg.

Myndin fjallar um geimveruna E.T. sem verður viðskila við félaga sína og ílendist á jörðinni. Drengurinn Elliot finnur hann og platar hann heim til sín þar sem systkini Elliots kynnast geimverunni. Fljótlega verður ljóst að E..T. er ekki aðeins greind vera heldur góð. Hann langar þó mest að komast til síns heima og reynir Elliot sitt besta til að liðsinna honum. Þeir lenda svo í ógöngum þegar yfirvöld komast á snoðir um veru geimverunnar hjá Elliot.

Sagan fjallar mest af öllu um gildi vináttu og þá sérstaklega þann góða boðskap að vinátta fer ekki eftir útlitslegri samsömun heldur eftir raunverulegum tilfinningatengslum. Þessi tengsl birtast á skemmilegan hátt í E.T. þar sem Elliot og geimveran tengjast á hugrænan hátt (e. Telepathy) og stjórnast líðan þeirra af hinum ef svo ber undir. Sem dæmi má nefna þegar E.T. er heima að horfa á rómantíska mynd og Elliot, sem upplifir tilfinningar geimverunnar, þrífur til sín stúlku í skólanum og kyssir hana á sama hátt og söguhetja kvikmyndarinnar kyssir stúlkuna sína. Með því að hafa E.T. og Elliot tengda á þennan hátt kynnir Spielberg áhorfendur sína fyrir tilfinningatengslum á mjög sjónræna vegu. Börn, sem skilja ekki alltaf það sem má lesa á milli línanna, geta því upplifað tengsl þeirra sem eitthvað áþreifanlegt sem þau sjá og þar af leiðandi eiga þau auðveldara með að heimfæra samband þeirra á eigin tilfinningatengsl.

E.T. er einnig þroskasaga Elliots. Hann lærir að elska skilyrðislaust því hann lærir að ást snýst líka um að virða vilja annarra. Bröttför geimverunnar, þótt tregablandin sé, verður til þess að honum lærist að kveðja. Heimför E.T. má þannig líka við dauða ættingja eða vinar. Geimveran, sem er augljóslega fullorðin, tilheyrir örðum stað eða annarri vídd. Það þýðir ekki að hún sé ekki elskuð og að hennar verði ekki minnst. Brottför hennar upp í himininn má auðveldlega túlka sem hliðstæðu við himnaferðir eldri ættingja, eitthvað sem langflest börn þurfa að horfast í augu við, þar á meðal Elliot sem hefur misst föður sinn.

Sjónræna hliðin á E.T. er áhugverð, einkum fyrir þær sakir hve ófrýnileg geimveran er. Grænn, rennilegur líkami með stórt höfuð er hvergi sjáanlegur heldur líkist E.T. visnu gamalmenni með kryppu. Það sem gerir geimveruna heillandi eru augun en þau eru stór og barnaleg. Einlægnin skín úr svipnum og því er hægt að treysta honum, burtséð frá ljótleikanum. Vissulega felst prófraun í útliti geimverunnar – án ljótleikans væri það ekki áskorun að þykja vænt um hann.

Hluti af þeim töfrum sem myndina glæða er vera Drew Barrymore á tjaldinu í hlutverki systur Elliots. Frammistaða ungra barna í kvikmyndum og sjónvarpi er oft æði mistæk en því er ekki að fagna hjá henni. Nærvera Barrymore er ekki aðeins heillandi heldur er framkoma hennar sem sex ára stúlku sérlega trúverðug. E.T. var upphafið af hennar langa og afdrifaríka ferli sem framan af markaðist af vansæld og fíkniefnamisnotkun. Það er því ekki laust við að siðferðisspurningar vakni þegar hún kemur fyrir. Líkt og myndin sjálf er Barrymore markaðsett sem söluvara. Sem barn hefur hún engar forsendur til að gera sér nokkra grein fyrir því hvað slíkt þýðir – ekki frekar en ungir neytendur sem vilja kaupa sér kók og E.T. dúkkur.



Þrátt fyrir þær mótsagnir sem í myndinni felast er hún ákaflega heillandi. Þegar boðskapur hennar rennur saman við þá sjónrænu dýrð sem boðið er upp á rennur ævintýraheimur Spielbergs saman við okkar eigin og við verðum hluti af atburðarás myndarinnar.
Því hunsum við kókdósirnar og setjum til hliðar skoðanir okkar á markaðsetningu því á meðan Elliot og E.T. fljúga á saman á hjóli fyrir framan tunglið erum við í ævintýraheimum þar sem gagnrýni og greining eru ekki til. Aðeins töfrar handa þeim sem leyfa sér að opna hug sinn og hjörtu fyrir ævintýrunum.


Helga Þórey Jónsdóttir