Monday, October 18, 2010

Lítið á fugla himinsins


The Birds
(Alfred Hitchcock, 1963)

Fuglarnir komu út árið 1963 og voru fyrsta mynd Hitchcocks síðan hann sló í gegn þremur árum áður með Psycho. Fuglarnir áttu eftir að reynast hans síðasta meistaraverk, ef frá er talin Frenzy. Myndin er byggð á samnefndri smásögu eftir Daphne du Maurier og segir frá árás fugla á þorpið Bodega Bay í Kaliforníu (The Fog eftir John Carpenter var einnig kvikmynduð þar). Reyndar er árás fuglanna nánast það eina sem myndin á sameiginlegt með smásögunni. Melanie Daniels (leikin af Tippi Hedren) hittir lögfræðinginn Mitch Brenner (leikinn af Rod Taylor) i San Francisco. Hún fellur fyrir honum og ákveður að elta hann til Bodega Bay. Þar kynnist hún móðir Mitch (sem virðist líta á allar stúlkur í lífi sonarins sem samkeppni) systur hans og öðrum bæjarbúum. Árásagirni fuglanna færist smátt og smátt í aukana og verða bæjarbúar að lokum að halda sig innandyra og byrgja öll göt til að halda lífi.

Fuglarnir var mikið tæknilegt afrek. Á þessum tíma var ekki hægt að styðjast við tölvubrellur og því þurfti að nota alvöru fugla (því hefur verið haldið fram að þeim hafi t.d. verið gefið viskí til að fá þá til að sitja kyrra). Gerð myndarinnar var svo flókin að undirbúningsvinnan tók næstum þrjú ár. Síðasta atriðið er gott dæmi um það, en myndflöturinn er settur saman úr 32 mismunandi skotum. Alls eru 370 tæknibrellur í myndinni. Það þykir því með ólíkindum aðCleopatra hafi hreppt óskarinn fyrir bestu tæknibrellurnar.

Hitchcock elskaði að takast á við ögranir. Hann hafði reynt að kvikmynda heila mynd í einni töku (Reipið, reyndar er hún tíu tökur, því Hitch þurfti að skipta um filmu, en klippingarnar eru faldar) og afmarkað sig við lítið svæði, eins og björgunarbát í Lifeboat og eitt herbergi íRear Window. Í þessari mynd ákvað Hitchcock að reyna að skapa spennu án þess að nota tónlist (reyndar syngja skólakrakkar eitt lag en það er eina tónlistin“ sem heyrist). Það er þó spurning hvort hægt sé að segja að engin tónlist sé í myndinni, því notaðir voru rafrænir hljóðgervla til að búa til fuglakvakið og var Bernard Herrmann ráðinn sem hljóðráðgjafi (en Bernard Herrmann samdi tónlist fyrir 8 myndir Hitchcock og er eitt virtasta tónskáld kvikmyndasögunnar).

En það er ekki bara tilraunagleðin sem gerir þessa mynd að klassískri Hitchcock-perlu. Hitchcock hóf feril sinn sem þöglumyndaleikstjóri og sótti þar fyrst og fremst í smiðju þýska expressíónismans. Það má sjá merki þess í öllum hans myndum. Form, línur og vinklar skipta öllu máli og frásagnarmátinn er fyrst og fremst myndrænn. Í raun væri hægt að horfa á flestar myndir hans hljóðlaust og átta sig fullkomlega á söguþræðinum. Árás fuglanna á barnaskólann er gott dæmi um þessa frásagnarsnilld Hitch, þar sem við sjáum Melanie reykja sígarettu af ótrúlegri nautn á meðan alltaf fjölgar í liði fuglanna sem raða sér á leiktækin bak við hana.

Annað sem gerir Fuglana að dæmigerðri Hitchcock-mynd er móðirin. Mæður í Hitchcock myndum eru oftast stjórnsamar, svo mikið svo að það jaðrar nánast við sturlun. Nægir þar að nefna Frenzy, Psycho og North by Northwest.

Hitchcock gerði aðeins örfáar hryllingsmyndir (flestar myndir hans myndu flokkast sem spennumyndir) en Fuglarnir myndi teljast sem ein þeirra og þykir hún enn svo óhugnanleg að hún lenti í sjöunda sæti í könnun Channel 5 og The Times árið 2006, yfir óhugnanlegustu myndir allra tíma. Það er því ljóst að þótt hryllingsmyndir hafi orðið grófari og gangi lengra í dag en hægt var fyrir tæp 50 árum þá nær myndin engu að síður enn að vekja óhug. Senan þar sem fuglarnir ráðast á Melanie í herberginu er kvikmynduð eins og um nauðgun sé að ræða. Það er erfitt að horfa á þá senu án þess að vera nánast uppgefinn þegar Melanie er dregin meðvitundarlaus út úr herberginu (það tók heila viku að kvikmynda þá senu og var Tippi Hedren svo uppgefin eftir tökurnar að hún þurfti vikufrí til að jafna sig andlega og líkamlega). Þótt undarlegt megi virðast ýtir skortur á tónlist undir hrylling myndarinnar. Tónlist getur skapað hrylling en hún veitir líka öryggi. Það er hægt að fela sig á bak við hana. Það er hvergi hægt að fela sig í Fuglunum og skortur á tónlist gerir fuglagargið enn óhugnanlegra.

Það má vel færa rök fyrir því að Fuglarnir sé ekki bara hryllingsmynd heldur einnig fjölskyldudrama, heimsslitamynd, og ástarsaga (í umfjölluninni hér á eftir mun ég t.d. fjalla um endi myndarinnar svo þeir fáu sem ekki hafa séð hana ættu kannski að hætta lestri þessarar greinar og klára hana eftir að þeir hafa séð þetta stórvirki).

Fuglarnir er fjölskyldudrama og um leið ástarsaga vegna þess að hún fjallar um brotnar fjölskyldur sem yfirvinna vandamál sín og ná saman. Melanie eignast móður (nokkuð sem hún hafði alltaf þráð) og móðirin eignast vin (nokkuð sem hún hafði einnig þráð). Í raun má líta svo á að fuglarnir séu aukaatriði í sögunni. Þeir eru bara MacGuffin (hugtak sem Hitch bjó til yfir þetta eitthvað“ sem þarf til að hrinda atburðarásinni af stað). Það mikilvæga er að móðirin vaknar til lífsins og verður mennsk á ný eftir raunir sínar og leysir um leið son sinn úr fjötrum sínum og leyfir“ honum þar með að þróa ástarsamband sitt við Melanie. Með því að líta á myndina sem fjölskyldudrama verður endirinn um leið jákvæður. Erfiðleikarnir fella múra, frelsa og færa fólk saman.

Í myndinni er aldrei útskýrt hvers vegna fuglarnir gera árás á mennina. Það er ljóst frá upphafi að eitthvað dularfullt er þegar farið að gerast í San Francisco. Hitchcock kemur þó með ýmsar vísbendingar í stiklunni fyrir myndina (trailernum).





Hér bendir meistarinn á hversu illa við höfum í raun farið með fugla í gegnum tíðina. Við notuð þá til skrauts, klæðumst þeim, borðum þá, skjótum þá okkur til gamans og svo mætti lengi telja. Ástæðan virðist því vera sú, að fuglarnir hafa fengið nóg. En hver svo sem ástæðan er þá er margt sem bendir til þess að Fuglarnir sé einnig heimsendamynd. Þær fáu mannverur, sem eftir eru í Bodega Bay, hrökklast í burtu og margt gefur til kynna að svipuð örlög bíði mannkynsins annars staðar á jörðunni (t.d. að fuglarnir voru farnir að haga sér undarlega í San Francisco). Takið einnig eftir því að myndin endar ekki með orðunum The End“ vegna þess að Hitchcock vildi gefa til kynna að hörmungarnar væru ekki yfirstaðnar.


Fyllibytta bæjarins tengir árásina einnig við heimsslit þegar hann þrumar vers úr Esekíel yfir lýðnum og hamrar síðan stöðugt á því að þetta sé heimsendir: Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna: Sjá ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar.“ (Esk 6:3.). Og hann lætur ekki þar við sitja heldur vitnar hann einnig í fjallræðu Krists á frekar kaldhæðinn hátt: Lítið á fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ (Mt 6:26.) Þetta eru huggunarorð í guðspjöllunum en þau snúast algjörlega í andhverfu sína hér, og er mannkynið hér orðinn matur fuglanna (faðir yðar himneskur fæðir þá) og um leið enginn jafningi (eruð þér ekki miklu fremri þeim?). Eru fuglarnir kannski sverð Guðs eins og fyllibyttan gefur til kynna þegar hún vitnar í Esekíel: Sjá ég læt sverðið koma yfir yður“?

Í ljósi þessa heimsslitastefs er áhugavert að í upphafi myndarinnar eru fuglarnir í búri en þegar líður á myndina snýst allt við og smátt og smátt er fólk komið í búr, hvort sem það eru bílar, símaklefar eða hús. Er sú ógn virkilega svo langsótt? Er Fuglarnir kannski ágætis dæmisaga um mikilvægi umhverfisverndar? Um að við munum þurfa að greiða fyrir vanvirðingu okkar gangvart náttúrunni? Í dag eru það við sem fjötrum en það getur auðveldlega snúist við. Fuglarnir eiga því kannski enn meiri erindi við okkur í dag en fyrir tæpum 50 árum.


Þorkell Ágúst Óttarsson