Sunday, October 10, 2010

Drepum söguhetjuna fyrst

Psycho
(Alfred Hitchcock, 1960)

A son is a poor substitute for a lover.
– Norman Bates

Norman Bates átti náið en flókið samband við móður sína. Hann elskaði hana svo mikið að hann varð að drepa hana en sá svo sárlega eftir því að hann varð að lífga hana við. Og það gerði hann, innan vébanda síns eigin huga. Að greina ástæður morðsins á Marion Crane er ekki aðeins greining á Norman Bates sjálfum heldur einnig greining á samskiptum hans við móður sína og hennar persónu. Ábyrgð hennar gagnvart syni sínum er í raun þungamiðja kvikmyndarinnar Psycho (1960) eftir Alfred Hitchcock. Atburðirnir á Bates-mótelinu eru afleiðing vanrækslu hennar og svika. Örlög Marion Crane skipta í raun og veru engu máli í samanburði. Sigmund Freud hefði getað gert sér góðan mat úr Norman Bates.

Norman Bates myrðir móður sína vegna ástarsambands hennar við annan mann, hann verður afbrýðisamur og þolir ekki þá upplifun að vera ýtt til hliðar. Því verða móðir hans og ástmaður hennar að deyja. Þegar hann skapar aukasjálfið, móður sína, gefur hann henni sömu eiginleika og hann hefur sjálfur að geyma, enda er persóna aðeins byggð á reynslu Bates – efniviðurinn hann sjálfur. Þannig myndast tengsl milli eiginlegrar persónu hans og aukapersónunnar. Það sem annað þeirra gerir hinu verður hitt að endurgjalda – Norman Bates lifir i sjálfheldu. Þegar Marion Crane kemur á mótelið sem Bates rekur og þau borða saman laðast hann að henni. En hún er hættuleg vegna þess að aðdráttarafl hennar storkar móður-hluta persónu Bates, dregur Bates sjálfan að sér, gerir „móður“ hans afbrýðisama. Um leið gerist hann sjálfur sekur um að endurtaka mistök móður sinnar, að laðast að einhverjum utan sambands þeirra tveggja. Marion Crane er ekki feig vegna fyrri synda heldur vegna þess hve hrífandi hún er og vegna þess að hún endurspeglar þann þátt í persónuleika Norman Bates sem varð til þess að hann drap móður sína. Slíkar áminningar eru ekki þægilegar fyrir geðveika morðingja.

Stefið um óheilbrigð tengsl móður og sonar var sótt í fjöldamorðingjan Ed Gein og samband hans við stranga púrítaníska móður sína en hann myrti tvær konur í Wisconsin á sjötta áratug síðustu aldar. Rithöfundurinn Phillip Bloch bjó í nágrenni við Gein og byggði hann skáldsögu sína, Psycho (1959) um Norman Bates á morðingjanum. Eftir að Alfred Hitchcock las söguna keypti hann kvikmyndaréttinn auk þess að festa kaup á þeim útgefnu eintökum sem hann komst yfir til þess að spilla ekki söguþræðinum.

Á árunum á undan 1960, þegar Psycho var frumsýnd, leikstýrði Hitchcock meðal annars myndunum Vertigo og North By Northwest, flóknum sálfræðitryllum sem skörtuðu mjög vinsælum stjörnum. Gríðarlegur metnaður var lagður í tæknibrellur, mikilfenglegar útitökur, fjölbreyttar sviðsmyndir og fjölda aukaleikara. Psycho boðaði hins vegar afturhvarf til einfaldari tíma þar sem hún er svart/hvít, skipuð minna þekktum leikurum og var að öllu leyti mun ódýrari í framleiðslu. Enda átti Hitchcock í örðugleikum með að fjármagna myndina. Áður hafði hann starfað með vinsælum Hollywood-stjörnum á borð við James Stewart og Grace Kelly en nú bar svo við að þau Janet Leigh og Anthony Perkins fengu aðalhlutverkin. Þau voru þekkt en þó ekki svo að þau krefðust of hárra launa. Þannig gat Hitchcock haldið framleiðslukostnaðnum niðri.

Psycho er ein þekktasta mynd Alfreds Hitchcock og er sagan um ferðalag Marion Crane og kynni hennar af Norman Bates flestum kunn. Þegar myndin var gerð átti Hitchcock langan og farsælan feril að baki sem leikstjóri bæði á Englandi og í Hollywood. Hann hafði fyrir löngu getið sér orðspor sem „meistari spennunnar“ með kvikmyndum sem byggðu framvindu sína með eftirvæntingu áhorfandans að leiðarljósi. Psycho var engin undantekning á þeirri hefð. Það sem aðgreinir Psycho frá hinum myndunum er ekki aðeins fólgið í breyttum efnistökum eins og því sem snýr að morðinu á Marion Crane, heldur í arfleið hennar og áhrifum. Morð urðu grafískari en áður. Úlfhildur Dagsdóttir bendir á í grein sinni „Af-skræmingar, af-myndanir og aðrar formlegar árásir“ að Hitchcock hafi drepið „hrollvekjuna úr þeim gotneska dróma sem hún hafið verið fjötruð í og leysti úr læðingi nýja tegund hryllings, líkamshryllinginn eða splatter.“ Notkun Hitchcocks á sjónarhorni, klippingu og tónlist draga fram hrylling morðsins á Marion Crane með aukum þunga sem ekki þekktist áður. Blóðugir naktir líkamar voru komnir til að vera.

Hitchcock lagði einnig áherslu á að hinn ævintýralegi og fjarlægi morðingi hyrfi og í hans stað yrði illmennið að einhverjum nálægum, einhverjum sem hefði greiðan aðgang að fórnarlömbum sínum og gæti leynst á bak við grímu hins venjulega vinalega manns. Fórnarlambið var saklaus leiksoppur sem kom lífi morðingja síns hans í raun ekkert við. Norman Bates er ekki aðeins goðsagnakennd sögupersóna, heldur einnig fyrirmynd þeirra sem á eftir komu. Staðalímynd hins geðveika fjöldamorðingja kvikmyndanna er að miklu leyti byggð á Bates, geðveiki hans verður ekki lengur frávik heldur vinsælt fordæmi. Geðveikir menn eru ekki hefðbundin skrímsli heldur leynast í gervi venjulegra manna. Þannig gerði Hitchcock óttann að viðtækara afli áður þekktist.

Hitchcock var sagður skemmtilegur kall, léttur í lundu og brá á leik við samstarfsfólk sitt þegar sá var gállinn á honum. Enda er ber það vott um húmor að kynna til leiks sögupersónu sem hefur alla eiginleika aðalsöguhetju en er svo drepin þegar myndin er tæplega hálfnuð. Það ber einnig vott um sjálfsöryggi leikstjórans og óttaleysi við að spila á tilfinningar áhorfenda sinna og koma þeim í opna skjöldu. Þessir eiginleikar Hitchcocks gerðu hann að þeim leikstjóra sem hann var, einkennileg blanda af húmor og sálrænum yfirráðum hjálpuðu honum að hafa vald á áhorfendum á sama tíma og hann sýndi þeim virðingu með því að leggja fyrir þá vandaðar leikfléttur og nákvæma tæknivinnu.

Útkoman er mjög agað verk, hvert atriði er markað naumhyggju og ekki síst nákvæmni. Flótti Marion Crane er skipulagður í þaula. Sjónarhorn myndavélarinnar leggst þungt á andlit hennar þar sem hún ekur og hugsar, og ómar dáleiðandi tónlist Bernard Herrmanns undir. Stemmingin er svo óhugnaleg að hún ætti í raun að vera fyrirboði um örlög hennar en það er of fjarstæðukennt að drepa hana – um hvern annan ætti myndin eiginlega að fjalla?



Helga Þórey Jónsdóttir