Monday, September 27, 2010

Ljóð um litlu fíknirnar

Coffee and Cigarettes
(Jim Jarmusch, 2003)


Coffee and Cigarettes er samansafn stuttmynda sem mynda eina fallega heild, nokkurskonar ljóð um litlu fíknirnar og ánægjulegu en merkingarsnauðu augnablikin sem lífið samanstendur af. Kvikmyndin er þrædd saman með þematískum atriðum í útliti og umfjöllun. Allir kaflarnir ellefu sem myndin samanstendur af hafa um það bil sömu sögu að segja. Þar eru kynntar til sögunnar nýjar persónur, iðulega fólk sem leikur sjálft sig í þeirra ofurhverdagslegu athöfn að fá sér kaffi, en stundum te, og reykja sígarettur á meðan þær ræða saman, oft um kaffi, sígarettur – eða eitthvað allt annað. Heildarniðurstaða myndarinnar verður svo til á ljóðrænan hátt í krafti þeirra hliðskipana og endurtekninga sem eiga sér stað á milli kafla sem og innan þeirra. Verkið stendur því í samræðu við sjálft sig á marga vegu og fær þannig miðlað mun meiru en hver og einn sjálfstæður kafli.

Myndin er líklega sú einfaldasta í höfundarverki Jarmusch, en þrátt fyrir það var hún óhemju lengi í framleiðslu eða 17 ár. Framleiðsluferlið hófst 1986 þegar hinn ungi og upprennandi indie-leikstjóri var beðinn að gera stuttmynd fyrir þáttinn Saturday Night Live. Afraksturinn varð stuttmyndin Strange to meet you, þar sem þeir Roberto Benigni og Steven Wright spjalla saman í svart-hvítu og fremur einföldu rými, aðallega um kaffi, yfir kaffibollum. Þessi stuttmynd setti strax tóninn fyrir þær tíu sem fylgdu á eftir á hvað varðar form, umfjöllunarefni og stíl.

Látlaus stíll Jarmusch birtist glögglega í formi myndarinnar. Rýmið sem birtist í köflunum er alltaf birt á sama hátt. Í upphafi atriðis er t.a.m. aldrei gerð nein tilraun til þess að skapa heildartilfinningu fyrir rýminu heldur sjáum við það yfirleitt aðeins frá einni ákveðinni hlið og alltaf í mittishæð. Þessi skot eru svo borin upp með yfirlitsskoti ofan á kaffiborðið.



Myndbandið er úr kaflanum Cousins? og er dæmigert fyrir þessa rýmisnotkun. Við sjáum Alfred Molina og Steve Coogan í mittishæð inni í frekar hráu rými. Í kjölfarið er klippt nær þeim og að lokum sjáum við nærmyndir af þeim báðum.

Þessir þættir fá mann til þess að spyrja sig að því hvar þeir séu staddir, en aldrei er gerð nein tilraun til þess að svara því. Einu vísbendingarnar sem eru í boði um staðsetningar fást úr samræðum persóna og kaflaheitum. Í Cousins? snúa samræðurnar t.a.m. að því að mennirnir tveir séu samtímis í Los Angeles, og hægt er að ganga út frá því að Champagne sé tekin í New York, þar sem þeir William Rice og Taylor Mead eru sérstaklega þekktir fyrir að vera þaðan.


Borð með tafli eða ámóta munstri er þema í gegnum myndina. Þessi borða-yfirlitsskot fá geómetríska vídd þar sem tilviljanakennd uppröðun brýtur upp reglubundinn flötinn. Þannig birtist kaffið og sígaretturnar á táknrænan hátt sem eitthvað sem stígur útfyrir daglega rútínu, eitthvað sem er á skjön við formfestuna og brýtur hversdagsleikann upp með óreglulegum hætti.

Val Jim Jarmusch á svart-hvítri filmu er til marks um látlausan stíl myndarinnar, en litirnir endurspegla umfjöllunarefnið á augljósan hátt. Einföld og síendurtekin uppbygging kaflanna myndar listræna heild og útkoman verður formfögur í einfaldleika sínum. Þessar endurtekningar eru til marks um sjálfhverfu verksins, þar sem með endurtekningar á einföldum atriðum í formi vekja áhorfandann til meðvitundar fyrir forminu sjálfu.

Það er þó ekki bara formið sem byggir á endurtekningum heldur eru ótal smáatriði í textanum sem birtast aftur og aftur. Þrír kaflar verksins fjalla um vandkvæði frægðarinnar á mismunandi hátt. Í kaflanum Cousins leikur Cate Blanchett bitra frænku sína á móti sjálfri sér. Kaflinn Cousins? fjallar svo um aðra vídd þess að vera frægur og loks er Bill Murray í felum sem veitingamaður á kaffihúsi í Delerium. Allir þessir kaflar er svo hnýttir saman með öðru minni, þ.e. frænda/systkina-stefi. Þar liggur þráðurinn í gegnum Twins, þar sem Lee-systkinin leika tvíbura, yfir í áðurnefndan Cousins og þaðan til Cousins? þar sem Alfred Molina ókunnugur Steve Coogan færir rök fyrir því að þeir séu frændur og að lokun til Delerium, þar sem GZA og RZA segjast vera frændur. Cousins? tengist svo fyrsta kaflanum Strange to meet you með þeim hætti að í þeim kafla kallar Roberto Steven Wright ítrekað Steve. Í Cousins? er það Steve Coogan sem kallar Alfred Albert. Svona mætti lengi telja.

Vissar setningar eru margendurteknar í myndinni, t.a.m. er oft bent á að kaffi og sígarettur séu óhollur hádegismatur. Endurtekning nær þó út fyrir almennar ábendingar og inn á mun sértækari svið, eins og draumfarir og tilvitnanir í Nikola Tesla.

Sá kafli sem dregur þessa tilhneigingu til endurtekningar hvað skýrast fram er No Problem, en þar er endurtekningin sjálf til umfjöllunar.



Í fyrsta skotinu eru þrír hlutir í mynd, þegar er klippt út sjáum við þrjá kaffibolla og maðurinn kastar teningnum þrisvar. Samtal þeirra Alex og Isaach er svo sífelld endurtekning á sömu spurningunni og sama svarinu. Í lok atriðisins kastar hann aftur teningnum þrisvar og fær aðeins tölur sem þrír gengur upp í.

Þannig er verkið hnýtt saman á meðvitaðan hátt með endurtekningum í formi, þemum og atburðum upp að því marki að endurtekning sjálf verður að umfjöllunarefni. Þannig verður til heild úr stuttmyndasafninu, ekki einn samliggjandi söguþráður heldur ljóðrænni og óræðari.




Lífið er kaffipása og það voru bara tvær mínútur eftir þegar það voru bara tvær mínútur eftir. Sjálfsmeðvitud verksins nær þarna vissu hámarki, sem og ljóðrænan, því þarna rennur sjálfsmeðvitundin sama við boðskapinn. Stóísk ró gömlu mannanna, fortíðarþráin og iðnaðar- kampavínskaffið kristalla umfjöllunarefni myndarinnar, litlu hversdagslegar nautnirnar, samtölin og samböndin sem gefa lífinu gildi.



Garðar Þór Þorkelsson