Tuesday, September 21, 2010

Við dauðans dyr

Dead Man
(Jim Jarmusch, 1995)



Hann heitir William Blake, alveg eins og enska stórskáldið, og er klæddur í hallærisleg, köflótt jakkaföt. Leið hans liggur með lest frá Cleveland til iðnaðarbæjar sem heitir því órómantíska nafni Machine. Blake hefur verið ráðinn sem bókhaldari í verksmiðju og er búinn að safna sér fyrir farinu síðustu tvo mánuðina, en þegar á staðinn er komið fær hann þær fréttir að búið sé að ráða annan bókhaldara í hans stað. Verksmiðjueigandinn John Dickinson er ákaflega ógeðfelldur maður og rekur hann út af skrifstofunni sinni með morðhótunum. Blake fer inn á krá og ráfar um göturnar þar sem hann hittir blómasölustúlkuna Thel. Þau fara saman upp í herbergið hennar en fyrrverandi elskhugi stúlkunnar kemur óvænt að þeim og Blake verður honum að bana í sjálfsvörn. Upp frá því þarf hann að lifa á flótta, og það er við ofurefli að etja, því maðurinn sem hann myrti var nátengdur ráðandi öflum í bænum.


Svona byrjar Dead Man, sjötta mynd Jim Jarmusch. Myndin heggur að mörgu leyti í sama knérunn og fyrri myndir leikstjórans, einkum í ljósi þess að hér er fjallað um aðkomumann á framandi stað. Slíkt er algengt í fyrri myndum hans: Stranger than Paradise fjallar um ungverska innflytjendur í Bandaríkjunum, Mystery Train um japanska ferðalanga í Memphis og ein af aðalpersónunum í Down by Law er Ítali í Lousiana. Dead Man markar þó viss tímamót í höfundarverki Jarmusch, því þetta er fyrsta myndin hans (og sú eina hingað til) sem gerist í fjarlægri fortíð, þ.e.a.s. á síðari hluta nítjándu aldar.


Dead Man er tekin í svarthvítu, líkt og fleiri myndir Jarmusch, en að sögn hans sjálfs var sú leið fyrst og fremst farin til þess að undirstrika framandleikann í því umhverfi sem sagan lýsir. Svarthvíta áferðin er líka leið Jarmusch til að skapa sér sérstöðu í því hvernig hann tekst á við kvikmyndagreinina sjálfa, þ.e. vestrann: „Frá því í lok sjötta áratugarins og byrjun þess sjöunda er eins og allir vestrar hafi verið teknir í sömu móskulegu litunum, sem eru notaðir aftur og aftur. Hvort sem það er mynd eftir Leone eða Eastwood, eða jafnvel Bonanza-þáttur, finnst mér litirnir alltaf vera nákvæmlega eins. Ef þessir litir hafa áhrif á áhorfandann á einhverju ómeðvituðu eða hálfmeðvituðu plani vildi ég frekar að svarthvíta áferðin í Dead Man minnti á stemmninguna í bandarískum myndum frá fimmta áratugnum og snemma á þeim sjötta, eða jafnvel sögulegar myndir eftir Kurosawa og Mizoguchi, frekar en kunnuglegt litrófið í yngri vestrum.“

Fleira í Dead Man er sótt í kvikmyndir japönsku gullaldarinnar. Hrynjandin í frásögninni er um margt lík því sem víða sést í myndum höfunda á borð við Kurosawa og Mizoguchi. Kaflaskiptingin í myndinni er ákaflega skýr, þegar frásögnin víkur frá einu atriði til annars er oft feidað í svart á milli, eins og til að gera skilin meira afgerandi. Atriðin verða þá eins og erindi í ljóði, fremur en þættir í órofnum vef. Sjáið t.d. þessa skiptingu:







Efnistökin í Dead Man eru harla frábrugðin því sem tíðkast í hefðbundnum vestrum. Ein af aðalpersónum myndarinnar er indjáninn Nobody sem leiðsegir okkar manni um gresjurnar og bjargar honum, að því er virðist, frá bráðum bana þegar hann er gerður útlægur. Mörk lífs og dauða eru þó ekki alveg greinileg í sögusamhenginu; í einhverjum skilningi deyr Blake þegar hann segir skilið við samfélagið og heldur út í óvissuna. Að þessu leyti er sjónarhorn og tímaskyn indjánans ríkjandi í Dead Man, en Jarmusch var mjög umhugað um að myndin næði til sem flestra frumbyggja í Ameríku. Indjáninn Nobody vinnur ötullega að því takmarki að koma Blake í andaheiminn, svo að hann komist á næsta tilverustig og hringrás lífsins geti haldið óslitin áfram. Söguskilningur hans er þannig alveg á skjön við línulegan tíma hins hefðbundna kúreka. Þegar Nobody kemst að því hvað heimski, hvíti maðurinn heitir verður honum ljóst að þörfin á að koma þessum villuráfandi anda út úr efnisheiminum er verulega brýn.







Þau háfleygu orð sem indjáninn Nobody síterar í þessu atriði („Every night and every morn...“) hljóma eins og indjánaspeki en eru í raun ljóðlínur eftir enska skáldið William Blake, alnafna bókhaldarans, en Nobody hefur verið dyggur lesandi ljóða hans frá unga aldri. Jarmusch sagði í viðtali árið 1996 að það hefði verið með ráðum gert að setja ljóðlínur Blakes inn í svona indjánasamhengi: „Blake labbaði inn í handritið áður en ég byrjaði að skrifa það.“ Samsláttur af þessu tagi, þvert á mörk menningarheima, er oft kenndur við póstmódernisma, enda hefur Dead Man oft verið lýst sem póstmódernískum vestra.

Dauðinn er grunnstefið í þessari kvikmynd, eins og titillinn gefur til kynna, og allt ferðalag Williams Blake er markviss leið frá lífi til dauða. Að þessu leyti er Dead Man náskyld næstu mynd Jarmusch, Ghost Dog: The Way of the Samurai (1999) sem fjallar um annan einfara í framandi umhverfi - samúræja í bandarískri stórborg. Báðar myndirnar fjalla um eftirlýsta menn sem eru leiksoppar örlaganna og þurfa að drepa fleiri en þeir hefðu sjálfir viljað, og í báðum myndunum er dauðinn mjög til umfjöllunar. Upphafsorð Ghost Dog eru sú höfuðregla samúræjans að hugleiða eigin dauða á hverjum degi. Í Dead Man er fjöldinn allur af skotum og atriðum sem virka á táknrænu plani eða sem myndhvörf fyrir þann dauða sem William Blake á í vændum - eða er e.t.v. þegar liðinn.

Dead Man er sannkölluð ráðgáta og hlaut dræmar viðtökur á sínum tíma. Roger Ebert lýsti myndinni sem tímasóun, hún væri langdregin og óskiljanleg: „Jim Jarmusch er að reyna að ná einhverju fram hérna, en ég hef ekki hugmynd um hvað það er.“ Tónlist Neil Young féll ekki einu sinni í kramið hjá Ebert og honum fannst hún hljóma eins og maður sem missir gítarinn sinn endurtekið í gólfið. Aðrir gagnrýnendur horfðu á myndina með opnari huga og tóku henni strax fagnandi, þar á meðal okkar eigin Ari Eldjárn sem gaf myndinni toppeinkunn í Helgarpóstinum haustið 1996 (þá fimmtán ára gamall!).

Fáir tóku Dead Man þó upp á arma sína með jafnafgerandi hætti og Jonathan Rosenbaum, gagnrýnandi Chicago Reader, en ítarlegur dómur hans um myndina varð seinna að bók. Með umfjöllun sinni um Dead Man skilgreindi Rosenbaum m.a.s. nýja kvikmyndagrein, sýruvestrann, og taldi myndina eitt skýrasta dæmi þeirrar greinar.


Hjalti Snær Ægisson