Monday, September 6, 2010

Allt, sem andann fælir


The Endurance:
Shackleton’s Legendary Antarctic Expedition

(George Butler, 2000)

Í árdaga kvikmyndalistarinnar voru landslagsmyndir mál málanna. Í heimi þar sem þorri almennings hélt sig innan sömu landamæranna frá vöggu til grafar og lágfargjaldaflugfélög voru ekki annað en óskadraumur þótti það vitanlega engu líkt að horfa á hreyfimyndir frá fjarlægum heimshornum. Það var raunar ekki fyrr en á öðrum áratug 20. aldar að leiknar frásagnarmyndir tóku forystuna og urðu að því sem fólk hugsaði um sem bíómyndir. Sýningarmennirnir sem Lumière-bræður sendu út um heiminn brugðu sér iðulega í hlutverk tökumanna og festu á filmu stuttar landslagsmyndir þar sem þeir voru staddir hverju sinni. Oftar en ekki voru svona myndir vettvangur tilraunamennsku og listrænna nýjunga, enda nauðsynlegt að laga sig að aðstæðum á hverjum stað. Einn þessara manna var Alexandre Promio sem á heiðurinn að fyrsta hreyfiskoti kvikmyndasögunnar, en það var tekið í Feneyjum árið 1896. Næstu árin á eftir voru svona skot einkum tengd landslags- og fréttamyndum í hugum fólks.




Þegar öld kvikmyndanna hefst er annarri öld að ljúka, sem er tími heimskautafaranna. Seinni mörk þess tímaskeiðs eru gjarnan miðuð við leiðangur Ernests Shackleton (1874-1922) til Suðurpólsins. Markmið ferðarinnar var að fara þvert yfir Suðurkautslandið í fyrsta sinn. Shackleton hafði áður farið tvo leiðangra á þessar slóðir, en í bæði skiptin þurfti hann að snúa við áður en á pólinn var komið. Hann hafði orðið undir í kapphlaupinu við Roald Amundsen, sem stýrði fyrsta leiðangrinum sem komst á Suðurpólinn árið 1911. Shackleton hóf undirbúning fyrir leiðangurinn snemma árs 1914 og mannaði skip sitt með því að birta auglýsingu í dagblaði. Hún hljómaði svona:

Menn óskast í hættulegan leiðangur. Lág laun, nístandi kuldi, algjört myrkur mánuðum saman, sífelld lífshætta. Endurkoma óviss. Frægð og heiður ef allt gengur vel. Ernest Shackleton.

Auglýsingin þótti svo aðlaðandi að fimm þúsund manns svöruðu henni. Sú staðreynd virðist ótrúleg í augum nútímafólks, en slíkt var aðdráttarafl heimskautaleiðangranna í huga fólks fyrir hundrað árum. Ferðir af þessu tagi grundvölluðust á vísinda- og framfaratrú í bland við hugmyndir um yfirburði vestrænnar menningar. Í upphafi 20. aldar er ímynd heimskautafarans sveipuð dýrðarljóma í hugum almennings í Bretlandi, líkt og í mörgum öðrum löndum, og markmið Shackletons var umfram allt að skrifa nafn sitt á spjöld sögunnar. Föruneytið lagði af stað á skipinu Þrautseigju (Endurance) þann 8. ágúst 1914, aðeins fjórum dögum eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út.

Einn þeirra sem fóru í ferðina með Shackleton var ljósmyndari að nafni Frank Hurley. Þátttaka hans í ferðinni skipti ekki litlu máli, því Shackleton seldi réttinn að notkun allra ljósmynda og myndskeiða fyrirfram, í því skyni að fjármagna leiðangurinn. Hurley lifði til ársins 1962 og átti m.a. eftir að taka kvikmyndir af skotgrafahernaði fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar heim var komið.

Myndir Hurleys eru uppistaðan í heimildamyndinni The Endurance sem gerð var árið 2000, þar sem rakin er saga leiðangursins. Efniviðurinn er vitanlega brotakenndur og því velur leikstjórinn, George Butler, þá leið að blanda saman myndskeiðum og ljósmyndum frá Hurley við sviðsett skot til að skapa dramatík og spennu. Oft er notast við tilvitnanir í dagbækur ferðalanganna til að segja söguna.




Leiðangur Shackletons fór öðruvísi en ætlað var. Skipið Þrautseigja festist í ísbreiðunni við Suðurskautið í janúar 1915 og þar máttu ferðalangarnir dúsa mánuðum saman. Ekkert sprengiefni var um borð í skipinu svo að mennirnir reyndu sitt besta við að losa skipið með handafli, með því að beita skóflum og hökum, en allt kom fyrir ekki. Í nóvember brotnaði skipið í spón og föruneytið stefndi aftur heim. Markmið ferðarinnar, að komast þvert yfir Suðurskautslandið, vék fyrir öðru markmiði, sem var að komast lifandi til baka. Það sýnir best leiðtogahæfileika Shackletons hversu vel honum tókst að halda hópnum saman á bakaleiðinni, enda var honum mjög umhugað um menn sína. Shackleton bjó yfir ýmsum dyggðum sem voru nauðsynlegar við aðstæður sem þessar og allir mennirnir komust lífs af úr ferðinni. Ekki voru allir heimskautafarar eins heppnir með leiðtoga. Ári áður hafði skipið Karluk strandað í för á Norðurpólinn, en Vilhjálmur Stefánsson (1879-1962), sem stýrði þeim leiðangri, fékk afar óblíð eftirmæli samferðamanna sinni, eins og lesa má í bókinni Ísherrann eftir Jennifer Niven.

Í kvikmynd Butlers er rætt við ýmsa viðmælendur, einkum afkomendur förulanganna, en aðalpersónan í þeirri deild er þó án efa sagnfræðingurinn Roland Huntford, sérfræðingur í sögu heimskautaferða. Huntford lýsir ákvörðuninni um að yfirgefa skipið Þrautseigju sem vendipunktinum í ferðinni og einum helsta vitnisburðinum um að leiðangursstjórinn hafi verið samboðinn því stóra nafni sem hann valdi skipi sínu. Það er hrein unun að hlýða á Huntford í þessari mynd, svo breskur og fágaður sem hann er í nálgun sinni á efnið, og aðdáun hans á Shackleton leynir sér ekki.



Kvikmynd Butlers er byggð á samnefndri bók eftir Caroline Alexander, en stóra vandamálið við kvikmyndaaðlögunina í þessu tilviki er skortur á myndefni. Þegar föruneytið yfirgaf Suðurpólinn neyddist Frank Hurley til þess að skilja mikið af filmunum sínum eftir á ísnum. Shackleton skipaði honum að eyðileggja þær, svo hann myndi ekki freistast til að reyna að bjarga þeim seinna. Þegar vel er að gáð sést að í þessari heimildarmynd eru eingöngu myndskeið frá förinni til Suðurskautsins og dvölinni í og við skipið eftir að það strandar; af óumflýjanlegum orsökum er ekkert myndefni til frá förinni til baka nema ljósmyndir. Butler gernýtir það litla efni sem hann hefur í höndunum og beitir ýmsum hugvitssamlegum leiðum við blöndunina.

Eftirfarandi myndskeið er gott dæmi um aðferð myndarinnar. Þegar hér er komið sögu hefur föruneytið siglt í björgunarbátum frá Suðurskautinu til Fílaeyjar (Elephant Island) og mennirnir hafa fast land undir fótum í fyrsta sinn í 497 daga. Engin byggð var á Fílaey, og því verður hluti mannanna að sigla áfram til hvalstöðvarinnar á eyjunni Suður-Georgíu sem er í 1.500 km fjarlægð. Shackleton sjálfur siglir þessa leið ásamt fimm förunautum á opnum árabáti, en afgangurinn af leiðangursmönnunum verður eftir á Fílaey, þ.á.m. ljósmyndarinn Frank Hurley. Butler dvelur hér við ljósmynd sem Hurley tók af félögum sínum þar sem þeir veifa til sexmenninganna þegar þeir leggja af stað og klippir síðan yfir í sviðsett skot af íshafssiglingu.



Föruneytið af Þrautseigju sneri aftur til siðmenningarinnar síðla árs 1916. Mennirnir höfðu lagt af stað um það leyti sem stríðið mikla hófst og nú tók gjörbreytt samfélag við þeim. Ferðalag Shackletons og félaga er atburður á mörkum tveggja tímaskeiða, og verður því enn áhugaverðari þegar það er skoðað í hinu stóra samhengi mannkynssögunnar. George Butler dregur þetta vel fram í mynd sinni, The Endurance, en höfuðkostur myndarinnar er þó umfram allt sú mikla nálægð við atburðina sem hún skapar. Atburðirnir í ferð Shackletons verða ljóslifandi og sýna svo ekki verður um villst að raunveruleikinn er stundum meira ævintýri en nokkur skáldskapur.



Hjalti Snær Ægisson