Monday, September 13, 2010

Loftur og íslenskt bíó

Ísland í lifandi myndum
(Loftur Guðmundsson, 1925)


Loftur Guðmundsson þurfti sífellt að synda á móti straumnum í listsköpun sinni, en var við öðru að búast? Árið 1923, þegar Loftur gerði sína fyrstu kvikmynd, var atvinnuleysi vandamál víða um landið og ófáar bæjarstjórnir þurftu að taka lán til að geta stofnað til atvinnubóta. Kreppan mikla skall á nokkrum árum seinna, verkamenn börðust við lögguna í Gúttó, eftirspurn eftir saltfiski erlendis fór minnkandi og hundruð manna létust úr berklum á hverju ári. Hefði ríkisstjórninni verið stætt á því að dæla peningum í kvikmyndagerð, unga, lítt þekkta og kostnaðarsama listgrein, í slíku umhverfi?


Fyrsta mynd Lofts, Ævintýri Jóns og Gvendar, var sýnd í Nýja bíó sumarið 1923 og þótti ein endemis vitleysa. Sýningarmaðurinn Ólafur L. Jónsson (Óli í Bíó), lýsti myndinni og viðtökunum svo í viðtali við Þorgeir Þorgeirson árið 1981: „Þetta átti að heita gamanmynd. Geta verður um eina stúlku, sem kölluð var Svanhildur fagra (Þorsteinsdóttir Erlingssonar). Hún var eina prýði myndarinnar. Úr þessu fékkst 20 mínútna sýning. Var sýnd sem aukamynd með þýskri mynd í Nýja Bíói árið 1923. Að myndinni hló enginn — og enginn skildi neitt. Þetta var ólíkt öllu sem fólk hafði séð, enginn söguþráður, tekið útum hvippinn og hvappinn. En afþví myndin var íslensk gekk hún í 10 daga og Loftur fékk 25% af brúttóinntekt bíósins. Hann fékk borgaðan kostnað. Það voru ýmsir að skamma Loft þó myndin væri ekki nefnd í blöðunum. Hann var sjálfur heldur ekki að hreykja sér af þessu neitt.“

Ekkert hefur varðveist úr Ævintýrum Jóns og Gvendar nema tveggja mínútna bútur, og er augljóst að hún hefur verið inspíreruð af myndum Chaplins. Í landi þar sem engar leiknar kvikmyndir höfðu nokkru sinni verið framleiddar þótti eðlilegt að styðja sig við erlend módel. En Loftur lét ekki deigan síga þótt enginn hafi hlegið að fyrstu myndinni, heldur vatt sér beint í næsta verkefni. Næst á dagskrá var heimildamynd um Ísland, náttúru, mannlíf og samfélag, eins konar heildaryfirlit. Loftur var sjálfur atvinnurekandi og ágætlega efnum búinn, en Íslandsmyndin var meiri háttar verkefni sem þurfti öfluga bakhjarla. Fjármagnið til framleiðslunnar kom að miklu leyti frá Thorsurunum, en Loftur fékk styrk frá útgerðarfélaginu Kveldúlfi. Haustið 1923 og mestallt árið 1924 er hann svo á þeytingi um landið að taka upp efni fyrir myndina. Afraksturinn er svo Ísland í lifandi myndum, sem frumsýnd var á nýársdag 1925.

Loftur var ekki fyrsti maðurinn sem gerði svona Íslandsmynd, en honum tókst sannarlega að setja mark sitt á formið. Aftarlega í myndinni er þetta skot:









Hvort sem Loftur sneið þetta uppátæki eftir erlendri fyrirmynd eða fann það upp hjá sjálfum sér er ljóst að það er staðreynd uppi á litla, afskekkta Íslandi árið 1924. Sjálfsvísanir í kvikmyndum, þ.e. sú tilhneiging listamannsins að draga athygli áhorfenda að sköpun, skrásetningu og eðli listar sinnar, er reyndar eldra fyrirbæri en margir halda, eiginlega jafngamalt og miðillinn sjálfur. Árið 1901 gerði skoski myndatökumaðurinn James Williamson stuttmyndina The Big Swallow. Þar kynnumst við herramanni sem er lentur fyrir framan myndavélina óviljugur og hefur alls engan áhuga á að láta taka myndir af sér. Hann reiðist svo mjög yfir þessari ósvífni kvikmyndagerðarmannsins að hann gleypir manninn og myndavélina í einum munnbita. Svo sleikir hann út um og hlær.









Sjálfsvísunin í The Big Swallow er augljóslega á kómískum forsendum, en eftir fyrri heimsstyrjöld fór að bera á svona einkennum í alvörugefnara samhengi. Sovéski kvikmyndagerðarmaðurinn Dziga Vertov er lykilfígúra í þeim umskiptum, en hann ritaði talsvert um byltingarkennda skrásetningarmöguleika kvikmyndarinnar. Þekktustu myndir hans, Kvikmynda-augað (1924) og Maður með myndatökuvél (1929), eru tilraunakennd verk sem fjalla fyrst og fremst um miðilinn sjálfan; kvikmyndatökuvélin getur sýnt okkur heiminn á nýjan hátt; hægt, hratt, afturábak.

Það að Loftur Guðmundsson skuli hafa bætt sjálfsvísunar-skotinu hér að ofan inn í mynd sína á sama tíma og Dziga Vertov gerði sín þekktustu verk austur í Rússíá bendir auðvitað til þess að hugmyndin hafi legið í tímanum. Hitt er vitanlega jafnlíklegt að Loftur hafi fyrst og fremst gert þetta til að bregða á leik og skemmta fólki. Sama ár og Loftur tók Íslandsmynd sína skrifaði Þórbergur Þórðarson í Bréfi til Láru: „Grunntónn tilverunnar er meinlaust grín.“ Loftur hefur ábyggilega tekið undir þessi orð Þórbergs, því þótt myndum hans sé fyrst og fremst hampað sem sögulegum vitnisburði um horfið samfélag, þá er alltaf stutt í flippið hjá Lofti. Sjáið t.d. þetta skot af sætu kisunni sem fær síld að borða á bryggjunni.









Köttur sem talar er auðvitað eitthvað sem Íslendingum finnst alveg sjúklega fyndið árið 1925. Þetta er íslensk fyndni fyrir Laxness, síldarplanið áður en Salka Valka var skrifuð. Samspil mynda og texta er líka notað í gamansömum tilgangi með því að nota „fundna frasa“, eins og í atriðinu þar sem myndatökumaðurinn skoðar söltunarstúlkuna, hrífst af dugnaðinum og kallar til strákanna: „Sú kann lagið á því, piltar!“









Ísland í lifandi myndum var sveinsstykki Lofts Guðmundssonar á sviði kvikmyndalistarinnar. Myndin varð ákaflega vinsæl og var sýnd fyrir fullu húsi í 33 skipti, sem var fáheyrt. Þar með var íslensk kvikmyndagerð orðin til, þótt hún yrði ætti ekki eftir að blómstra fyrr en mörgum áratugum seinna. Myndinni var dreift í Evrópu, m.a. á Norðurlöndunum og í Þýskalandi, og mótaði vafalaust mjög sýn alþjóðasamfélagsins á Ísland á millistríðsárunum. Meira að segja Kjarval skrifaði krítík um myndina árið 1925 og kallaði hana „stórvirki“. Saga þessarar myndar er mikilvægur kafli í stærri sögu, sem er sagan um það hvernig Loftur Guðmundsson fyllti upp í íslenska bíótómið.


Loftur stóð í stöðugu basli alla sína starfsævi, hann athafnaði hann sig á vettvangi þar sem aðeins örfáir aðrir voru honum til félagsskapar. Hann var hugsjónamaður sem lét ekki mótlætið stöðva sig, og hann áttaði sig á mikilvægi kvikmynda fyrir ímyndasköpun landsins. Ef honum hefði aldrei dottið í hug að búa til bíómyndir væru varðveittar, íslenskar hreyfimyndir frá fyrri hluta tuttugustu aldarinnar aðeins brot af því sem nú er. Ef hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi hefðu á starfstíð Lofts verið eitthvað í líkingu við það sem raunin er í velmegunarsamfélagi nútímans er þó alveg ábyggilegt að hið opinbera hefði sýnt honum miklu meiri skilning.


Hjalti Snær Ægisson